Fjármálastjóri Hyrnuvar dæmd í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi Norðurlands eystra árið 2016fyrir stórfelldan fjárdrátt. Hafði hún frá árinu 2000 til 2015 dregið sér fé frá byggingarfyrirtækinu, rétt rúmar fimmtíu milljónir króna.
Skömmu eftir að fjárdrátturinn komst upp sendi Hyrna bréf til KPMG þar sem krafist var bóta. Byggt var á því að endurskoðun KPMG á ársreikningi Hyrnu hefði verið ófullnægjandi og það leitt til tjóns félagsins. KPMG hafnaði kröfunni og tók fram að ekki hefði verið sýnt fram á að endurskoðunaraðgerðum hefði verið ábótavant umrædd ár.
Byggði Hyrna mál sitt meðal annars á því að endurskoðendur KPMG hefðu átt að verða varir við fjárdráttinn þegar árleg endurskoðun á reikninum félagsins stóð yfir. KPMG benti hins vegar á að félagið hafi varað og vakið athygli stjórnenda Hyrnu á því að fjármálastjórinn annaðist bókhald, greiðslu reikninga og launaútreikninga.
Vinnubrögð í samræmi við alþjóðlega staðla
Þá hafi fjárdráttur fjármálastjórans verið töluvert fyrir innan svokölluð mikilvægismörk, sú fjárhæð sem reikna má með að skekkjur eða villur samanlagt myndi og hægt sé að samþykkja án þess að óska eftir leiðréttingum á reikningsskilum.Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að vinnubrögð KPMG hafi verið í „í samræmi við góða endurskoðunarvenju og þá alþjóðlegu endurskoðunarstaðla“ sem KPMG ber að fara eftir. Ekki hafi verið sýnt fram á að starfsmenn félagsins hafi brugðist skyldum sínum eða gert mistök við endurskoðun á ársreikningum Hyrnu á umræddu tímabili sem leitt geti til bótaskyldu.
Var KPMG því sýknað af kröfum Hyrnu auk þess sem að byggingarfyrirtækið þarf að greiða KPMG 1,2 milljónir í málskostnað.