Kergja er meðal flugmanna sem sagt var upp hjá Icelandair í kjölfar kyrrsetningar Boeing 737 MAX 8-þotanna. 130 flugmenn sem störfuðu hjá Icelandair síðastliðið sumar eru ekki við störf þar í vetur.
„Okkur er sagt upp á þeim forsendum að kyrrsetning MAX-þotanna hafi neikvæð áhrif á rekstur Icelandair, stuttu seinna er tilkynnt um 7,5 milljarða króna hagnað. Þetta er sárt,“ segir fyrrverandi flugmaður hjá Icelandair.
Fréttablaðið hitti flugmenn sem eru úr hópi þeirra 87 sem var sagt upp 25. september síðastliðinn. Þeir segja kergju í hópnum en að það myndi skaða atvinnumöguleika til frambúðar ef þeir stigju fram undir nafni, en fram kom í tilkynningu frá Icelandair á sínum tíma að vonast sé til að ráða þá sem flesta aftur næsta vor.
„Við skildum það í sumar þegar við vorum færð niður í 50 prósent starf frá desember til apríl. Við erum tryggir starfsmenn og viljum ekki gera neitt annað,“ segir einn flugmannanna. Frá því að þeim var sagt upp hafa þeir haft mikinn tíma til að velta stöðu sinni fyrir sér. „Í stað okkar er Icelandair að leigja fullmannaðar vélar að utan og er að fjárfesta í flugfélagi á Grænhöfðaeyjum.“
Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segist vilja sjá flugmennina aftur í fullu starfi en staðreyndin sé sú að forsendur hafi gjörbreyst.
„Þegar Icelandair gekk frá því var gert ráð fyrir að MAX 8-vélarnar væru að komast í gagnið á fjórða ársfjórðungi. Það var gert ráð fyrir fimm nýjum vélum frá Boeing í vor sem koma ekki,“ segir Örnólfur. Varðandi samninginn um 50 prósent starf frá desember segir Örnólfur að honum hafi verið sagt upp samhliða. „Þegar Icelandair stendur frammi fyrir því að þurfa að segja upp miklu fleira fólki en gert var ráð fyrir þá var þeim samningi sagt upp með sama þriggja mánaða fyrirvaranum.“
Umfangið sé mun minna en gert var ráð fyrir og þar af leiðandi sé minni þörf á mannskap. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig umfangið verður næsta sumar. Alls eru 800 flugmenn í FÍA, þarf af eru rúmlega 450 starfandi hjá Icelandair. Örnólfur segir að í vetur séu 130 flugmenn sem störfuðu hjá Icelandair í sumar ekki með vinnu í vetur.
Ekki hafa fengist viðbrögð frá Icelandair þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í nýlegri tilkynningu frá félaginu segir að stefnt sé að því að taka MAX-þoturnar aftur í gagnið í mars á næsta ári.
Fyrrverandi flugmenn gramir

Tengdar fréttir

Icelandair rauk upp meðan Bogi og Eva kynntu uppgjörið
Búið er að bókfæra hluta Boeingbótanna en flugfélagið áætlar þó að kostnaður vegna innleiðingar og gagnsetningar vélanna komi fram eftir áramót.

Icelandair segir upp 87 flugmönnum og gerir kjarasamning við þá sem eftir eru
Icelandair hefur undirritað framlengingu á kjarasamningi við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) sem gildir til 30. september 2020. Þá hefur verið ákveðið að horfa frá áformum um að færa 111 flugmenn í 50% starf.

Lengsta MAX-þotan frumsýnd í kyrrþey hjá Boeing án fjölmiðla
Fyrsta eintakinu af Boeing 737 MAX 10-þotunni var ýtt úr verksmiðju félagsins í Renton í Washington-ríki á föstudag. Þetta er lengsta þotan í 737-línunni og átti að verða krúnudjásnið í MAX-flotanum.