Töluverður hiti er meðal félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands sem komu saman í húsakynnum félagsins við Síðumúla klukkan tólf í dag. Tilefnið var að ráða ráðum sínum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.
Þriðju verkfallsaðgerðinni sem fyrirhuguð var hjá vefblaðamönnum á Vísi, Mbl, Fréttablaðinu og RÚV var frestað á tíunda tímanum í morgun. Þá hefðu fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á vefmiðlum lagt niður störf þriðja föstudaginn í röð, í tólf klukkustundir í þetta skiptið.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, fer yfir stöðuna með blaðamönnum en til stendur að bera undir blaðamenn kjarasamning frá Samtökum atvinnulífsins í næstu viku. Samning sem samninganefnd BÍ hafði hafnað fyrr í haust. Fundurinn í hádeginu er vel sóttur af blaðamönnum í stéttinni sem hafa verið án samnings síðan um áramót.
Hjálmar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að samninganefndin hefði staðið frammi fyrir tveimur vondum kostum. Að stefna deilunni í mjög harðan hnút í desember, hjá frjálsum fjölmiðlum sem standi veikum fótum, eða gangast undir ok lífskjarasamningsins, eins og Hjálmar komst að orði. Það hafi verið niðurstaðan.
Fundinum lauk á öðrum tímanum. Til stendur að samninganefndin skrifi undir samning við Samtök atvinnulífsins í dag sem lagður verður fyrir félagsmenn í næstu viku.
Blaðamenn Vísis eru langflestir í Blaðamannafélagi Íslands.
Hitafundur í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands

Tengdar fréttir

Verkfallsaðgerð vefblaðamanna í dag frestað
Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhugaðri verkfallsaðgerð vefblaðamanna sem fyrirhuguð var í dag. Klukkan tíu stóð til að fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á vefmiðlum legðu niður störf í tólf tíma.