Kári Árnason talaði fyrir hönd leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar hann hitti tyrknesku blaðamennina á Türk Telekom Arena í gær.
Tyrknesku blaðamennirnir spurðu Kára út möguleika íslenska liðsins í leiknum á morgun og hvernig íslenska liðið nálgaðist þennan mikilvæga leik þar sem Tyrkir geta tryggt sér sæti á EM 2020 en Ísland verður að vinna til að vera enn á lífi í keppninni.
„Tyrkir hafa gert mjög góða hluti í þessari undankeppni og það sem er þar mikilvægast er að þeir náðu í fjögur stig á móti Frakklandi sem hefur sett okkur í erfiða stöðu,“ sagði Kári Árnason.
„Þetta breytir ekki því að við komum hingað til að vinna leikinn. Vonandi verður ekki partý í Istanbul annað kvöld og við munum gera okkar besta til að koma í veg fyrir það,“ sagði Kári við blaðamenn í gær, og átti þá við leikinn sem er í kvöld.
„Ég vil samt ítreka það að Tyrkir hafa gert mjög vel og þeir þurfa aðeins eitt stig. Þeir fá tvö tækifæri til að komast á EM, á móti okkur og á móti Andorra. Við fáum einn möguleika sem er að vinna báða leiki,“ sagði Kári.
„Líkurnar eru á móti okkur en við höfum ekki gefist upp ennþá,“ sagði Kári.
