Birni Snæbjörnssyni, formanni Starfsgreinasambandsins, þykir þetta skjóta skökku við en Vísi hefur verið bent á ræðu sem Inga Rún hélt á kjararáðstefnu sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldin var fyrir kjörna fulltrúa, í þessu sambandi. Að þetta hafi eiginlega verið vonlaust verk strax þá því Inga Rún fer hinum háðuglegustu orðum um kröfur viðsemjenda sinna.
Sjá einnig: Ályktun SGS kornið sem fyllti mælinn
„En hverjar eru kröfurnar í þessum kjaraviðræðum? Á þessum tímapunkti eru komnar fram nálægt tvö hundruð kröfur frá stéttarfélögunum innan ASÍ og BSRB sem spanna allt að umfangsmiklum og kostnaðarsömum ákvæðum á kjarasamninga yfir í viðbit eins og sólgleraugu, inniskó og að aðgengi að örbylgjuofni verði tryggt á vinnustað. Því miður heyrir það til undantekninga að stéttarfélög leggi fram vel ígrundaðar kröfur með skýrri framtíðarsýn og ábyrgum tillögum um leiðir til að komast þangað,“ segir Inga Rún og hún er hvergi nærri hætt.
Kröfurnar „All you can eat buffet“
„Algengast er að kröfugerðirnar hafi það yfirbragð að hattur hafi verið látinn ganga á fundi, allir láti óskir sínar í hann, einhver hafi síðan tekið að sér að skrifa þær tilviljunarkennt á blað og komið á framfæri án frekari rýni af neinu tagi. „All you can eat buffet“ eru orð sem koma upp í hugann í þessu samhengi,“ segir Inga Rún og uppsker nokkra kátínu í salnum þar sem sitja kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna.Lítilsvirðandi málflutningur
Björn telur þessa ræðu vart boðlega.„Maður er bara hálfdapur að sjá þennan málflutning og hversu lítil virðing er borin fyrir starfsmönnum sveitarfélaganna, það er hæðst að kröfum þeirra og hugmyndum í tengslum við kjarasamninga og gert lítið úr félagslegum vinnubrögðum, miðað við þetta viðhorf er kannski ekkert skrýtið að lítið hefur gengið í viðræðum við sveitarfélögin í 7 mánuði,“ segir Björn í samtali við Vísi.
Af þessu má sjá að ekki er líklegt að viðsemjendur nái saman í bráð. Menn innan starfsgreinasambandsins telja þennan málflutning Ingu Rúnar lítilsvirðandi útúrsnúninga og til marks um að vilji til að semja hafi aldrei verið neinn.