Innlent

Umferðaraukning heldur ekki í við fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Verkefnastjóri Vegagerðarinnar segir umferðartölur haldast fast í hendur við efnahagsástandið.
Verkefnastjóri Vegagerðarinnar segir umferðartölur haldast fast í hendur við efnahagsástandið. Vísir/Vilhelm
Samdráttur hefur orðið á umferð á höfuðborgarsvæðinu því hún heldur ekki í við fólksfjölgun. Verkefnastjóri Vegagerðarinnar segir umferðartölur haldast fast í hendur við efnahagsástandið.

Umferð á sextán lykilteljurum Vegagerðarinnar á hringveginum hefur aukist um 2,7 prósent frá áramótum. Árið á undan hafði umferðin um hringveginn aukist um 4,3 prósent á sama tíma.

„Það er spáð 0,2 prósent samdrætti í hagvexti. Umferðartölur og hagvöxtur tengjast mjög náið. Það er 98 prósent fylgni á milli umferðartalna og hagvaxtar. Samdráttur í hagvexti kemur niður á umferð,“ segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri umferðardeildar Vegagerðarinnar.

Hann segir samdrátt í hagkerfinu skila sér síðar í umferðina og því gæti orðið enn frekari samdráttur á næstu mánuðum. Gjaldþrot flugfélagsins WOW air hefur til dæmis haft töluverð áhrif.

„Ég sé það bara á tölum ferðamanna frá Bandaríkjunum og Kanada, það sem WOW flutti mest til okkar. Ferðamenn frá Bandaríkjunum hafa dregist saman um 33 prósent það sem af er ári og kanadískir um 25 prósent. Bretum hefur einnig fækkað um tæp fimmtán prósent. Bretar eru næst fjölmennastir. Þessir þrír hópar geta valdið fimmtán prósent samdrætti í ferðamönnum til landsins í ár. Það gæti þýtt eitt og hálft til tvö prósentu samdrætti í umferð.“

Á höfuðborgarsvæðinu hefur umferð aukist um 1,2 prósent það sem af er ári. Umferð á höfuðborgarsvæðinu fylgir betur hagvaxtarþróun. Í fyrra jókst umferðin á svæðinu á sama tíma um 3 prósent.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári verið 1,7 prósent.

„Þetta nær ekki að halda í við fólksfjölgun, þessi aukning sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er í raun samdráttur.“

Segir Friðleifur Ingi sem býst ekki við mikilli aukningu í umferð á næsta ári miðað við hagspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×