Yfirmenn hjá bandarísku flugfélögunum United Airlines, American Airlines og Southwest ráðgera að fljúga sjálfir með annars farþegalausum Boeing 737 MAX vélunum eftir að flugmálayfirvöld hafa aflétt flugbanni á vélunum. Er þetta hluti af áætlun sem flugfélögin vona að muni sannfæra almenning um að öruggt verði að stíga um borð í vélarnar á nýjan leik.
Þetta kemur fram í Wall Street Journal þar sem segir að talið sé að um mánuður muni líða frá því að flugmálayfirvöld gefi grænt ljós á að afnema flugbannið og þangað til flugfélög geti nýtt 737 MAX vélarnar í áætlunarflugi.
Í millitíðinni þurfi að sinna viðhaldi og þjálfa flugmenn sem fljúga eigi vélunum. Í frétt Wall Street Journal segir að flugfélögin þrjú hyggist einnig nota þennan mánuð til að að fljúga vélunum í fjölmargar ferðir þar sem vélarnar verði farþegalausar utan þess að um borð verði yfirmenn félaganna, fjölmiðlamenn og mögulega mikilvægir viðskiptavinir.
Tilgangurinn sé að sýna almenningi fram á það að öruggt sé að fljúga vélunum sem hafa verið í alþjóðlegu flugbanni frá því í mars vegna tveggja mannskæðra flugslysa.
„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að að viðskiptavinir okkar sjái flugvélina í loftinu á nýjan leik,“ segir Ross Feinstein, talsmaður American Airlines.
Boeing vonast til þess að stutt sé í það að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum gefi grænt ljós á þær breytingar sem flugvélaframleiðandinn hefur lagt til að ráðist verði í svo aflétta megi flugbanninu. Icelandair, eitt af flugfélögunum sem flugbannið hefur bitnar á, reiknar með að taka MAX-vélar sínar í notkun í fyrsta lagi í febrúar.

