Eliza Reid forsetafrú og sagnfræðingur verður fundarstjóri á Alþjóðadegi Millilandaráðanna sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica þann 11. nóvember næstkomandi. Eliza heldur reglulega ræður, ávörp og fyrirlestra en minna hefur farið fyrir fundarstjórn forsetafrúrinnar þótt undantekningar hafi verið á því.
Meðal framsögufólks á ráðstefnunni, sem stendur í tvo tíma frá klukkan 15 til 17 og lýkur með kokteil, eru Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Aðalræðumaður á ráðstefnunni verður Hollendingurinn Richard van Hooijdonk, framtíðar- og stefnurýnir. Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrum yfirmaður þróunar hjá Google Assistant, heldur erindi og sömu sögu er að segja um Steinþór Pálsson, meðeiganda KPMG og yfirmann rekstrar- og stjórnendaráðgjafar.
Millilandaráðin eru hluti af starfsemi Alþjóðasviðs hjá Viðskiptaráði Íslands. Á heimasíðu Viðskiptaráðs kemur fram að helmingur félaga í ráðunum séu erlend fyrirtæki. Hvert ráð sé sjálfstætt og með sjálfstæða stjórn sem jafnan er skipuð forsvarsmönnum og konum í viðskiptalífi beggja þjóða.
Miðaverð fyrir félagsmenn er 9900 krónur en 14900 krónur fyrir almenna gesti.
Eliza Reid fundarstjóri á viðskiptaþingi

Tengdar fréttir

„Ég er ekki handtaska eiginmanns míns“
Eliza Reid, forsetafrú, segir að sér þyki það skammarlegt hvernig sjálfstæðar og klárar konur séu álitnar aukahlutir á pólitískum fundum eiginmanna sinna.

Eliza Reid í New York Times: „Enginn vill vera dæmdur sem fylgihlutur maka síns“
Forsetafrú Íslands ræðir um undarlegt hlutverk maka þjóðarleiðtoga í aðsendri grein í New York Times í dag.

Forsetahjónin sóttu krýningarathöfn nýs Japanskeisara
Nýr Japanskeisari var krýndur í dag og voru íslensku forsetahjónin viðstödd krýningarathöfnina.