Hefði viljað grænni framkvæmd
„Við í Viðreisn studdum að sjálfsögðu við þennan sáttmála,“ segir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og forseti borgarstjórnar. Næstu skref af hálfu borgarinnar séu þau sem snúa að borgarlínu, breyttu skipulagi við Vogabyggð og áform um að setja Miklubraut í stokk. Hvað veggjöldin varðar verði forvitnilegt að fylgjast með þeirri umræðu á Alþingi. Sjálfur sé hann á þeirri skoðun að það sé eðlilegt að þeir sem nýti vegakerfið greiði fyrir það.„Við erum alveg samstíga hér í Reykjavík og það hefur verið náin samvinna með þingflokknum líka í þessu máli,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs. Hún kveðst fagna samkomulaginu og segist ekki eiga von á öðru en að Píratar samþykki sáttmálann.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, tekur í sama streng og segir einhug vera innan flokksins um ágæti samkomulagsins.

Efasemdir innan minnihlutans
Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegt að flestir ef ekki allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins muni greiða atkvæði gegn samgöngusáttmálanum, þótt ekki séu þeir allir með sömu áherslur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og kunni því að greiða atkvæði á ólkíkum forsendum. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, hefur til að mynda sagt verk að vinna að ná sátt um sáttmálann. Enn eigi margt eftir að útfæra þótt annað sé af hinu góða. „Það er mörgum spurningum ósvarað og þeim virðist frekar fjölga, ósvöruðu spurningunum,“ segir Eyþór í samtali við Vísi.Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, ætlar að greiða atkvæði gegn samgöngusáttmálanum. „Þetta plagg er algjörlega óútfært,“ segir Vigdís. Hún kveðst ekki hafa fengið nein skýr svör um útfærslu og framkvæmd þegar eftir því hafi verið leitað. Þá geti hún engan veginn fallist á hugmyndir um veggjöld.
„Ég get ekki tekið þátt í því að það eigi að sækja 50-60 milljarða í vasa þeirra sem kjósa að ferðast á einkabílnum,“ segir Vigdís sem kveðst einnig óhress með að Sundabraut sé ekki ótvíræður hluti af samkomulaginu auk þess sem óvissa sé að hennar mati um hvernig borgarlínuverkefnið verði útfært. „Þetta er algjör óvissuferð á kostnað skattgreiðenda,“ segir Vigdís.

Sjá einnig: Segir flesta borgarfulltrúa vera „amatöra“ í umræðunni um samgöngumál
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segist hugsanlega vera tilbúna að styðja samgöngusáttmálann en þó með ákveðnum fyrirvörum. Ólíklegt verður að teljast að borgarstjórn fallist á alla þá fyrirvara. Sósíalistar leggja fram viðaukatillögu við sáttmálann þar sem tíundaðir eru þrír fyrirvarar.
Í fyrsta lagi að fallið verði frá öllum fyrirætlunum um veggjöld, hvaða nafni svo sem þau kunna að nefnast. Í öðru lagi að Keldnaland verði ekki selt hæstbjóðenda heldur verði því úthlutað til einhvers eða einhverra sem hafi áhuga á að byggja þar húsnæði, og í þriðja lagi að lagt verði meira í borgarlínu og uppbyggingu almenningssamgangna.