Davíð Oddsson vitnar í forvera sinn í ritstjórastóli Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarsson, í Staksteinum dagsins. Þar er enn til umræðu hin bágborna staða en báðir hafa þeir pönkast í forystu flokksins um hríð.
„En niðurstaða allra þriggja [skoðanakannana] er gersamlega óviðunandi fyrir þennan 90 ára gamla flokk. Forystusveit flokksins hefur augljóslega tilhneigingu til að taka þessar niðurstöður ekki alvarlega.“
Kannanir hverflyndar eins og kvensa
Þeir Styrmir og Davíð telja að það gætu reynst örlagarík mistök að taka ekki mark á þessu því verði niðurstaða kosninga á svipuðum nótum mun þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fækka enn og líkur á endurheimtum meirihluta Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur nánast engar. Valhöll verði að taka þetta mál alvarlega.
„En hitt er líka vitað að kannanir eru hverflyndar eins kvensan fræga.Og svo er kannski brýnna að viðurkenna vandann en að velta honum fyrir sér.“
Styrmir telur að bregðast verði við þessari stöðu og það megi gera með ítarlegri könnun á því hvað veldur því að flokkurinn hefur misst svo mjög traust kjósenda. Í ljósi slíkrar ítarlegrar könnunar fer bezt á því að ræða svo málið fyrir opnum tjöldum.

Móðgaður fyrir hönd Bjarna
Hermann Guðmundsson stuðningsmaður Bjarna Benediktssonar formanns flokksins móðgast fyrir hönd síns manns og telur þarna sá höggva er hlífa skyldi:„Þetta hlýtur að teljast gott grín inn í helgina,“ segir Hermann, segir að á sama tíma og annar fyrrum formaður og varaformaður stofna flokk Evrópusinna og taka með sér marga flokksmenn sem sumir hverjir kosta útgerðina á Fréttablaðinu og Hringbraut „þá tekur Morgunblaðið upp það nýmæli að ráðast af miklu afli á þann stjórnmálaflokk sem hefur í áratugi verið það afl sem hefur rutt brautina fyrir atvinnulífið og bætt lífskjör.“

Telur Moggamenn mega líta í eigin barm
Hermann er augljóslega svekktur fyrir hönd flokksins og Bjarna. Hann telur að það færi Davíð betur að muna hvernig það er að standa í stafni stórs stjórnmálaflokks „þegar samherjar svíkja lit hver um annan þveran af eigin þrjósku, eigin metnaði eða hreinni óvild. Nóg er af slíkum dæmum.“Hermann telur að eigendur Morgunblaðsins gætu svo sannarlega litið í eigin barm „og spurt sig afhverju þessi fjölmiðill dali hraðar en Sjálfstæðisflokkurinn og af hverju hægri menn finni ekki lengur hugsjónum sínum stað í blaðinu nema þá daga þegar Óli Björn Kárason ritar þar greinar.“