Í skjölum sem Boeing hefur nú sent dómstólum kemur fram að flugmaður hafi skrifað að hann hafi lent í vandræðum þegar verið var að prófa vélarnar. Hann sagði að hann hafi í raun „logið að eftirlitsaðilum [ómeðvitað].“
Vankantar öryggiskerfisins hafa verið tengdir tveimur flugslysum sem urðu 346 manns að bana.
Fyrra slysið varð í Indónesíu í október 2018 þegar Boeing Max 737 vél Lion Air hrapaði í sjóinn stuttu eftir flugtak frá Jakarta. Í því slysi létust 189.
Síðara slysið varð í Eþíópíu þegar vél Ethiopian Airlines hrapaði nokkrum mínútum eftir að vélin tók á loft og létust allir 157 um borð.
Flugmálaeftirlit Bandaríkjanna (FAA) sagði skjölin áhyggjuefni og sagði að Boeing væri krafið svara um hvers vegna gögnin hafi ekki verið birt fyrr. Boeing birti dómstólum skjölin fyrr í mánuðinum áður en réttarhöld hófust.
Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg mun sitja fyrir svörum fyrir dóminum. Honum var nýlega sagt upp sem stjórnarformaður fyrirtækisins þótt hann sé enn forstjóri þess.

„Við munum halda áfram að fylgja leiðbeiningum FAA og annarra alþjóðlegra eftirlitsstofnanna á meðan við vinnum að því að koma 737 Max vélunum klakklaust aftur í loftið,“ sagði Boeing í yfirlýsingu.
Rannsóknaraðilar á slysunum í Eþíópíu og Indónesíu hafa lagt áherslu á hlutverk öryggiskerfisins, sem kallað er MCAS (Manoeuvring Characteristics Augmentation System), sem hannað var til að gera flugvélum auðveldara að fljúga.
Rannsóknir sýna að öryggiskerfið og bilanir skynjara hafi að hluta til valdið því að flugmenn gátu ekki stjórnað vélinni.
Boeing hefur kennt röngum upplýsingum um slysin. Þá sé verið að endurskoða öryggiskerfið til að bæta það.
Heimildir segja að Boeing hafi komist að skilaboðunum, sem eru frá árinu 2016, fyrir nokkrum mánuðum. Flugmaðurinn sem sendi þau vinnur ekki lengur fyrir fyrirtækið.
Eftir að yfirlýsing flugmannsins var birt sagði hinn starfsmaðurinn, sem fékk skilaboðin, að „þetta hafi ekki verið lygi, enginn sagði okkur að þetta væri málið.“
Verðmæti eignarhluta í félaginu lækkaði um meira en 5% á föstudag eftir að þessar fregnir bárust.