Kolbeinn Sigþórsson er aðeins einu marki frá því að bæta markamet Eiðs Smára Guðjohnsen fyrir íslenska landsliðið í fótbolta.
Kolbeinn, sem skoraði í báðum landsleikjunum í síðasta glugga, hefur nú skorað 25 mörk fyrir A-landslið Ísland. Markamet Eiðs Smára er 26 mörk.
Eftir erfið meiðsli er Kolbeinn loksins að komast almennilega á skrið og hefur farið stígvaxandi síðustu mánuði.
„Mér finnst ég enn vera á uppleið og á nóg inni finnst mér, ég er að bæta mig í hverjum leik,“ sagði Kolbeinn við Hörð Magnússon á landsliðsæfingu í dag.
„Ég er bjartsýnn á meðan ég er að bæta mig.“
Fram undan er gríðarstórt verkefni gegn heimsmeisturum Frakka á Laugardalsvelli á föstudagskvöld.
„Við þurfum að ná einhverju út úr þessum leik, helst í þrjú stig.“
„Þetta verður erfiður leikur en við höfum sýnt að það getur allt gerst á þessum velli.“
Kolbeinn: Finnst ég bæta mig í hverjum leik
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
