Útför Jacques Chirac, fyrrverandi forseta Frakklands, var gerð frá kirkjunni Saint-Sulpice í París fyrr í dag.
Leiðtogar og fyrrverandi leiðtogar frá tugum ríkja sóttu útförina. Þannig voru Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Tamim bin Hamad Al Thani, emír Katars, í hópi gesta.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands, sem send var út í gærkvöldi, sagði að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, myndi sækja minningarathöfn í París fyrir hönd forseta Íslands og íslensku þjóðarinnar.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var einnig í hópi gesta, sem og fyrrverandi forsetarnir François Hollande og Nicolas Sarkozy.
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, var þó hvergi sjáanleg þar sem fjölskylda hafði lagt áherslu á að hún væri ekki velkomin.
Jacques Chirac andaðist í síðustu viku, 86 ára að aldri. Hann gegndi embætti forseta Frakklands á árunum 1995 til 2007. Áður hafði hann meðal annars gegnt embætti forsætisráðherra og borgarstjóra Parísar.
Útför Jacques Chirac gerð frá París

Tengdar fréttir

Jacques Chirac er látinn
Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, er látinn, 86 ára að aldri.