Guðjón Skarphéðinsson sem var fundinn sekur í Hæstarétti árið 1980 fyrir hlutdeild að dauða Geirfinns Einarssonar árið 1974, hefur stefnt ríkinu fyrir ólöglega frelsissviptingu í 1.792 daga og harðræði í löngu gæsluvarðhaldi. En hann og fjórir aðrir sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru allir sýknaðir í Hæstarétti í fyrra.
Samkomulag um bætur tókst ekki við sakborninga og ættingja við sáttanefnd sem forsætisráðherra skipaði. En Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns ræddi einnig við ríkislögmann eftir það.
„Og það tókst ekki að semja. Bilið var of mikið til að við næðum saman.“
Það voru þá upphæðirnar sem ekki voru nógu háar?
„Já þær voru ekki í samræmi við dómafordæmi,“ segir Ragnar og vísar þar til bóta sem einstaklingar sem tengdust Klúbbnum fengu í bætur eftir að hafa setið í um hundrað daga í gæsluvarðhaldi vegna vitnisburðar sakborninga. Guðjón krefst 972 milljóna auk dráttarvaxta í bætur.

„Já við lögmenn erum að sætta mál alla daga hvort sem þau eru komin fyrir dóm eða ekki.“
Þannig að þið bjóðið ennþá fram á það við stjórnvöld að ná sáttum?
„Já, já. Ég hef að sjálfsögðu sagt það við settan ríkislögmann að umbjóðandi minn sé ætið reiðubúinn að ræða samkomulag,“ segir Ragnar.
Skipaður ríkislögmaður í málinu hefur lagt fram greinargerð í héraðsdómi þar sem aðallega er stuðst við málatilbúnaði í sakamálinu 1980. Ríkið hafnar öllum kröfum Guðjóns og vísar meðal annars til lagagreina sem kveða á um frávísun bóta ef sakborningar beri einhverja ábyrgð á framvindu mála.
„Það er grundvallar misskilningur hjá ríkisstjórninni að halda að hún geti borið fyrir sig sakfellingardóminn frá 1980. Hann var felldur úr gildi í fyrra með dómi Hæstaréttar í sýknumálinu,“ segir Ragnar. Þar með hefjist allir fyrningarfrestir í málinu í fyrra haust en ekki 1974.
Ríkið sýni mikla óbilgirni í máli Guðjóns.
„Hún er svo ótrúleg að í fyrsta skipti á ævinni svimaði mig eftir að hafa lesið greinargerð ríkisins. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Það er gengið svo langt. Það er slíkur óheiðarleiki og ekki gætt að reglum hins siðaða samfélags að það er eiginlega ekki hægt að trúa því þótt maður lesi greinargerðina aftur og aftur,“ segir Ragnar Aðalsteinsson.
Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu í dag segir meðal annars að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að semja um sanngjarnar bætur til þeirra sem sýknaðir voru og aðstandenda þeirra sem fallnir væru frá og afla til þess viðeigandi lagaheimildar. Ríkisstjórnin muni halda áfram athugun á slíkri lausn, sem aðilar gætu verið sáttir við.