Fjármálastjóri Eflingar og bókari fóru í veikindafrí síðasta haust og leituðu í kjölfarið til hæstaréttarlögmanns þar sem starfsmennirnir töldu að brotið hefði verið á sér.
Þær hafa nú sent frá sér yfirlýsingar vegna opinberra ummæla Viðars Þorsteinssonar um sín mál í viðtali Stöðvar 2 sem birtist í heild sinni á Vísi í gær.
Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Eflingar segir háttsetta stjórnendur félagsins hafa verið handgengnir fyrri forystu
Kristjana Valgeirsdóttir fjármálastjóri segir í sinni yfirlýsingu að Viðar hafi neitt sig í veikindaleyfi og reynt að bola sér úr starfi. Hann saki fyrri forystumenn Eflingar um spillingu sem séu ósannindi. Í yfirlýsingunni kemur fram að þar gleymi Viðar vísvitandi að það hafi verið athugasemdir Kristjönu og bókara félagsins vegna ósamþykktra fjárútláta til vildarvina hans og formanns félagsins sem leiddu til þess að þeim var gert ókleift að starfa innan félagsins og þær hafi hrökklast í veikindaleyfi.
Staðreyndin sé sú að Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson hafi aldrei ljá máls á neinum samningum við starfsmenn. Tugmilljónakröfur sem þau segi að hafi komið fram frá starfsmönnum sé ekkert annað en áróður. Dapurlegt sé að stéttarfélagið Efling bjóði það eitt og sér fram í fjölmiðlum að reka starfsmenn í dýr og tímafrek málaferli. Forysta Eflingar hagi sér þannig eins og verstu skúrkar í atvinnurekenda stétt.
Viðar og Sólveig fari með ósannindi um mál starfsmanna.
Í Yfirlýsingu Elínar Hönnu Kjartansdóttur bókara Eflingar harmar hún málflutning og ásakanir Viðars Þorsteinssonar. Veikindi sín séu rakin til framkomu og atburða af hálfu stjórnenda á skrifstofu félagsins. Hún lýsir furðu sinni á þeim ummælum framkvæmdastjórans að verið sé að reyna að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga sem séu langt umfram réttindi. Hún segist ekki eiga nógu sterk orð yfir það virðingarleysi sem formaður og framkvæmdastjóri Eflingar hafi sýnt starfsmönnum og félagsmönnum Eflingar með málflutningi sínum.
Hér að neðan má lesa yfirlýsingar þeirra í heild sinni.

