Samningseiningar BSRB funduðu í dag eftir að slitnaði upp úr viðræðum við ríkið í gær. Niðurstaða fundarins var sú að vísa kjaradeilunni við ríki til ríkissáttasemjara.
Í tilkynningu frá BSRB kemur fram að fundurinn hefði verið gagnlegur og að mikil samstaða hefði ríkt þar.
Deilan hverfist að mestu um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án kjaraskerðingar en með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Í tilboði ríkisins var áfram miðað við 40 stunda vinnuviku en opnað á að samið yrði um styttingu vinnuvikunnar á einstökum vinnustöðum gegn því að þeir starfsmenn sleppi kaffitímanum.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir að ekki komi til greina að starfsfólk borgi fyrir styttinguna.
Enn á eftir að taka umræðu um jöfnun launa á milli markaða, launaþróunartryggingu og launaliðinn.
