Sádar segjast ætla að sanna aðkomu Íran að árásinni

Spenna á milli Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna annars vegar og Íran hins vegar er mikil og hefur aukist til muna á undanförnum dögum eftir að umfangsmikil árás var gerð á stóra olíuvinnslu í Sádi-Arabíu. Bandaríkjamenn segja vísbendingar um að Íran hafi framkvæmt árásina en Íranar neita því. Hútar, sem eiga í átökum við Sáda og bandamenn þeirra í Jemen og eru studdir af Íran, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Umfang árásarinnar og nákvæmni þykir þó til marks um að Hútar hafi ekki burði til að gera slíka árás.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur varað Bandaríkjamenn við því að ferðast til Sádi-Arabíu og að þeir sem geri það sýni aðgát.
Varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu mun halda blaðamannafund í dag og í tilkynningu segir að þar verði ljósi varpað á aðkomu Íran að árásinni og að hún hafi ekki verið gerð frá Jemen. AP fréttaveitan hefur eftir sendiherra Sádi-Arabíu í Bretlandi að Sádar séu sannfærðir um að Íranar hafi komið að árásinni. Þeir vilji hins vegar fara sér hægt því það síðasta sem þeir vilji séu frekari átök á svæðinu.
Tengdar fréttir

Fullyrða að árásirnar hafi verið gerðar frá Íran
Bandarískir embættismenn segja að drónar og flugskeytin í loftárásunum á sádiarabískar olíulindir um helgina hafi komið frá sunnanverðu Íran.

Sádar segja írönsk vopn notuð í árásirnar
Hvorki Bandaríkjastjórn, Sádar né uppreisnarmenn Húta hafa lagt fram sannanir um hver stóð að loftárásum á sádi-arabískar olíulindir um helgina.

Gefur lítið fyrir viðræður við Trump
Ali Khamenei, leiðtogi Íran, segir ekki koma til greina að opna viðræður við Bandaríkin. Mögulega væri hægt að ræða við Bandaríkin í samfloti við önnur ríki, ef Bandaríkin gangi aftur að kjarnorkusamkomulaginu svokallaða.

Olíuverð hækkaði um fimmtán prósent í gær
Ástæðan eru árásir sem gerðar voru á olíuvinnslustöð í Sádi-Arabíu á laugardag en við það minnkaði olíuframleiðsla heimsins um fimm prósent.

Trump segist til í slaginn vegna árásar í Sádi-Arabíu
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn í nótt að Bandaríkin gætu brugðist við árás á olíuframleiðslu Sádi-Arabíu með hernaðaraðgerðum.