Maðurinn sem grunaður er um að hafa myrt einn og sært átta í árás í borginni Villeurbanne í Frakklandi í gær er talinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna og í geðrofi. Nítján ára karlmaður lést í árásinni.
Árásin átti sér stað klukkan 14:30 að staðartíma og réðst maðurinn að fólki á biðstöð þar sem það beið eftir næsta strætisvagni. Í frétt AP kemur fram að maðurinn sem er í haldi lögreglu grunaður um árásina sé frá Afganistan en ekkert bendi til þess að hann hafi nokkur tengsl við hryðjuverkasamtök.
Nicolas Jacquet, saksóknari í Lyon, sagði sálfræðimat hafa leitt í ljós að maðurinn hafði verið með óráði og sýnt merki þess að vera haldinn ofsóknaræði. Þá hafi hann heyrt raddir sem sögðu honum að drepa.
Jacquet þakkaði viðstöddum fyrir hugrekki sitt en þeir stöðvuðu árásarmanninn áður en lögregla mætti á vettvang. Að sögn saksóknarans hefur maðurinn ferðast til þónokkurra Evrópulanda undanfarin tíu ár og hafði verið búsettur í miðstöð fyrir hælisleitendur.
Ekkert sem bendir til tengsla við hryðjuverkasamtök

Tengdar fréttir

Einn myrtur og minnst níu særðir í Frakklandi eftir hnífaárás
Hinn grunaði hefur verið handtekinn. Talið er að 19 ára gamalt ungmenni hafi látið lífið í árásinni.