Matteo Guendouzi kom inn í hóp heimsmeistaranna fyrir Paul Pogba sem er meiddur. Frakkar eru eins og kunnugt er í sama riðli og við Íslendingar í undankeppni EM 2020.
Matteo Guendouzi fékk að vita af vali sínu eftir nágrannaslaginn á móti Tottenham um helgina. Hann hélt þá að hann yrði með 21 árs landsliðinu í landsleikjafríinu en fljótlega kom annað í ljós.
Guendouzi sagði söguna á bak við þessa stóru stund þegar hann frétti að hann væri kominn í franska landsliðið og hér fyrir neðan má sjá myndband af því sem kom inn á heimasíðu franska landsliðsins.
Nope, you're definitely not dreaming, @MatteoGuendouzi!
The @Arsenal midfielder reacts to his first senior call-up, replacing Paul Pogba in the squad ??#FiersdetreBleuspic.twitter.com/7QAHP0HG1O
— French Team ?? (@FrenchTeam) September 2, 2019
Sylvain Ripoll, þjálfari franska 21 árs landsliðsins, fór í heimsókn til Matteo Guendouzi og sagði honum fréttirnar. Guendouzi var sofandi og svaraði ekki fyrr en þjálfarinn hringdi í hann. Það gaf Ripoll tækifæri til að finna upp á smá prakkarastriki.
„Hann sagði við mig: Matteo, komdu hérna, við þurfum að tala svolítið saman. Hann sagði svo: Ég er mjög hrifinn af þér sem leikmanni en þú verður að fara.,“ lýsir Matteo Guendouzi. Hann hélt um tíma að hann væri að missa sæti sitt í 21 árs landsliðinu.
„Ég svaraði: Hvað meinar þú að ég þurfi að fara? Hvað ertu að segjaÐ Hann svaraði þá: Þú verður með franska A-landsliðinu. Ég trúði þessu ekki í fyrstu. Ég var sofandi þegar hann kom og ég hélt ég væri enn að dreyma,“ sagði Guendouzi léttur.
Guendouzi bætti við að Sylvain Ripoll gæti kannski betur lýst viðbrögðum sínum en þessi tuttugu ára miðjumaður var augljóslega í skýjunum með að vera kominn í franska A-landsliðið í fyrsta sinn.