Það er að mörgu að taka af eftirminnilegum ferli Atla Eðvaldssonar sem spilaði sem atvinnumaður í Þýskalandi og Tyrklandi og var bæði fyrirliði og þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins.
Það er þó ein helgi í júnímánuði áður 1983 sem verður aldrei toppuð. Ekki aðeins vegna afreks Atla heldur einnig vegna leikjaskipulags í knattspyrnuheiminum. Það er eitt að skora sex mörk á tveimur dögum en annað að spila alvöru leiki tvo daga í röð og blanda inn í það marga klukkutíma ferðalagi frá Þýskalandi til Íslands.
Þeir eldri muna örugglega eftir þessu en fyrir hina er full ástæða til að halda henni á lofti sem dæmi um hversu öflugur knattspyrnumaður Atli Eðvaldsson var á sínum tíma.
Tímabilið 1982 til 1983 var Atli Eðvaldsson á sínu öðru tímabili með Fortuna Düsseldorf í þýsku bundesligunni. Hann var búinn að eiga mjög flott tímabil þegar kom að lokaumferðinni 6. júní 1983 og hafði skorað 16 mörk í 33 leikjum.
Þetta var fjórða tímabil Atla í Þýskalandi en tímabilið 1981-82 spilaði hann aðeins tvo leiki. Hann var þá leikmaður Dortmund en færði sig yfir til Fortuna Düsseldorf og skoraði 7 mörk í 26 leikjum á fyrstu leiktíð. Atli gerði miklu betur á tímabili númer tvö.
Lokaleikurinn var á móti Eintracht Frankfurt en það sem flækti málið að daginn eftir átti íslenska landsliðið að spila á móti Möltu í undankeppni EM 1984.
Flugvél beið Atla og Péturs Ormslev, sem líka lék með Fortuna Düsseldorf, á flugvellinum í Düsseldorf og flutti þá beint til Íslands eftir leik.

Atli var í miklu stuði og skoraði öll fimm mörk Fortuna Düsseldorf í leiknum og varð um leið fyrsti útlendingurinn í sögunni sem nær að skora fimmu í leik í bundesligunni. Atli endaði tímabilið með 21 mark í 34 leikjum og sem annar markahæsti leikmaður deildarinnar.
Enginn annar íslenskur leikmaður hefur síðan náð að skora fimmu í leik eða yfir tuttugu mörk á einu tímabili í einni af fimm bestu deildum Evrópu.
Við tók flug með einkaflugvél og landsleikur við Möltu daginn eftir. Það var ekki að spyrja að því, Atli Eðvaldsson skoraði eina mark leiksins tveimur mínútum fyrir leikhlé. Þetta reyndist vera eini sigurleikur íslenska liðsins í allri undankeppninni.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar blaðaúrklippur um þessa ótrúlegu helgi Atla þegar hann skoraði sex mörk á aðeins tveimur dögum.






