Átta missa vinnuna hjá VÍS.Fréttablaðið/Anton Brink
Tryggingarfélagið VÍS sagði upp átta starfsmönnum fyrir helgi. Þeir störfuðu þvert á deildir. Þetta staðfestir Óskar Hrafn Þorvaldsson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, í samtali við Markaðinn og nefnir að breytingarnar séu skref í átt að því að fyrirtækið nýti stafræna tækni í ríkari mæli.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, upplýsingafulltrúi VÍS.„Við erum í einhverjum skilningi að umbreyta hefðbundnu tryggingarfélagi. Markaðurinn er að þróast hratt. Allar okkar aðgerðir miðast við að verða tilbúin til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan,“ segir hann.
Tryggingarfélög horfa í auknum mæli til stafrænnar tækni. Í gær var upplýst að Guðmundur Óskarsson hefði verið ráðinn sem forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá VÍS.
Hans helsta verkefni er að leiða sölu- og markaðsmál fyrirtækisins í gegnum stafrænar leiðir. Hann var áður framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.
Hagnaður VÍS á öðrum ársfjórðungi var 1,3 milljarðar króna samanborið við 291 milljónar króna tap á sama tímabili fyrir ári. Samsett hlutfall var 96 prósent miðað við 109 prósent á sama tíma fyrir ári.