Gylfi Þór Sigurðsson verður að venju í stóru hlutverki þegar Íslendingar mæta Moldóvum á Laugardalsvellinum á laugardag í undankeppni Evrópumótsins.
Everton hefur farið ágætlega af stað. Liðið situr í 6. sæti deildarinnar og hefur einungis tapað einum leik í upphafi leiktíðarinnar.
„Þetta hefur farið ágætlega af stað. Fyrsti leikurinn var erfiður útileikur gegn Crystal Palace,“ sagði Gylfi í samtali við Hörð Magnússon aðspurður um hvernig honum hafi litist á byrjunina.
„Þar var mikill vindur og þurr völlur en við vorum svekktir að fá ekki þrjú stig í fyrsta leik. Eftir það hefur þetta verið upp og niður.“
„Tapið gegn Aston Villa var mjög svekkjandi en við erum í sjötta sætinu sem er ágætis byrjun. Við eigum tvo ágætis leiki framundan sem gæti sett okkur í fína stöðu.“
Everton-maðurinn segist vera nálgast sitt besta form. Hann fór rólega af stað en hefur mikið látið að sér kveða í síðustu tveimur leikjum með Everton.
„Ég var ekki alveg upp á mitt besta í fyrstu leikjunum en síðustu leikir hafa verið betri. Mér hefur liðið betur og liðið er betri fram á við.“
„Núna erum við búnir að skora sjö mörk í tveimur leikjum. Við vissum það að við vorum búnir að vera búa til færi en ekki nógu skarpir fram á við,“ sagði Gylfi.
Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.

