Pólski framherjinn Robert Lewandowski skrifaði í gær undir nýjan samning við Bayern og hann er nú samningsbundinn félaginu til ársins 2023.
Þessi 31 árs gamli leikmaður er búinn að skora 197 mörk í 246 leikjum fyrir þýska félagið. Þar af er hann búinn að skora öll fimm mörk liðsins í upphafi leiktíðar.
„Bayern er mitt íþróttaheimili og ég er mjög stoltur af því að vera hluti af þessu félagi,“ sagði Lewandowski við undirskriftina.
Hann er orðinn þriðji markahæsti leikmaður í sögu Bayern. Gerd Müller er markahæstur með 398 mörk og Karl-Heinz Rummenigge kemur næstur með 217. Lewandowski nær honum mjög fljótlega.
