Forsvarsmenn bílaumboðsins Bernhard hefur ákveðið að innkalla Honda bifreiðar af árgerðunum 2001 til 2012. Alls er um að ræða 1078 bifreiðar af gerðunum Accord, Jazz, Civic, Steam og CR-V.
Á vef Neytendastofu er ástæða innköllunarinnar sögð vera sú að loftpúðar bifreiðanna gætu verið gallaðir. Um er að ræða hluta af alþjóðlegri innköllun sem rekja má til loftpúðaframleiðandans Takata, sem leikið hefur marga íslenska bílaeigendur grátt á undanförnum árum.
Upp komst um hina gölluðu Takatapúða árið 2015. Síðan þá hafa milljónir bifreiða um allan heim verið innkallaðar, þar af þúsundir á Íslandi. Það var til að mynda gert í janúar síðastliðnum, þegar Toyota á Íslandi innkallaði alls 2245 bifreiðar. Fyrrnefnt Bernhard þurfti sjálft að innkalla á sjötta hundrað bíla í febrúar. Takata var úrskurðað gjaldþrota árið 2017.
Að sögn Neytendastofu felst innköllunin ekki síst í því að skipta um loftpúða, annað hvort farþega- eða ökumannsmegin. Viðkomandi bifreiðareigendum verður tilkynnt um innköllunina bréfleiðis.
„Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við umboðið ef þeir eru í vafa,“ segir á vef Neytendastofu.
Rúmlega þúsund bílar innkallaðir

Tengdar fréttir

Aftur innkallar Toyota á Íslandi þúsundir bíla
Toyota á Íslandi hefur ákveðið að innkalla alls 2245 bifreiðar vegna loftpúðagalla.

Áfram hrellir Takata íslenska bifreiðaeigendur
Bernhard ehf. mun þurfa að innkalla hundruð Honda-bifreiða af árgerðum 2010 til 2015.