Milljarðamæringurinn David Koch, sem þekktur er fyrir umsvif sín og styrkveitingar í bandarískum stjórnmálum, er látinn 79 ára gamall. Bróðir David, Charles Koch, greindi frá andláti yngri bróður síns í yfirlýsingu í dag. NBC greinir frá.
David Koch varð hlutafjáreigandi í fyrirtæki föður síns Koch Industries árið 1967. Við andlát hans átti David Koch, 42% hlut í fyrirtækinu, jafn stóran hlut og bróðir hans Charles. Árið 2018 voru þeir bræður jafnir í ellefta sæti yfir ríkustu menn heims og voru þeir metnir á 51 milljarð dala hvor.
Með auði sínum stuðluðu bræðurnir að uppgangi ýmissa aðila innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Þeir studdu vel við kosningasjóð Mitt Romney forsetaframbjóðanda Repúblikana í kosningunum árið 2012. Eftir forval flokksins fyrir forsetakosningar 2016 ákváðu þeir að veita ekki fé í kosningasjóð Donald Trump og kusu að einbeita sér að öldungadeildar- og fulltrúadeildarkosningum. Lýstu þeir oft og tíðum að skoðanir þeirra samræmdust ekki skoðunum Trump.
David Koch var fæddur í Wichita í Kansas-ríki árið 1940. Koch lærði efnaverkfræði í MIT og spilaði körfubolta með liði skólans. Setti hann þar stigamet þegar hann skoraði 21 stig að meðaltali á háskólaferlinum. Þá skoraði hann 41 stig í einum leik, met sem stóð frá 1962 til 2009.
Koch var varaforsetaefni Frjálshyggjuflokksins í forsetakosningunum 1980 en náði ekki kjöri. Fjórum árum seinni skráði hann sig í Repúblikanaflokkinn og studdi hann til dauðadags.
Hann giftist Juliu Flesher árið 1996 og lætur eftir sig þrjú börn.
Annar Koch-bræðra látinn

Tengdar fréttir

Koch bræðurnir beita sér ekki gegn Trump
Áfall fyrir leiðtoga Repúblikanaflokksins, sem reyna að hægja á framgangi Trump.

Koch bræður sækjast eftir fjölmiðlasamsteypunni Time Inc.
Koch bræður hafa áhuga á því að styðja fjölmiðlarisann Meredith Corporation í kaupum á Time Inc.

Umdeildir fjárfestar að baki kaupum á Time
Bandaríska útgáfufyrirtækið Meredith Coropration mun festa kaup á samkeppnisaðila sínum, hinum nafntogaða tímaritaútgefanda Time Inc, fyrir 2,8 milljarða dala, eða 300 milljarða króna.