Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri Senu Live, segir það koma sér á óvart hve margir hafa ákveðið að notast við snemm-inritunina og segir flesta þegar hafa sótt pappírsmiðana sína í þar til gerða Ed Sheeran-búð í Kringlunni.
„Snemm-innritunin hentar aðallega þeim sem eru í hópi og þurfa að innrita sig saman en ætla að mæta í sitt hvoru lagi á tónleikana. Það er í rauninni lítið annað sem snemm-innritunin gerir nema hún auðveldar, þú færð armband og þarft ekki að sýna skilríki og miða þegar þú kemur á tónleikana sjálfa,“ segir Rúnar í samtali við Vísi.
„Það er alls ekki skylda að fara í snemm-innritun. Það er líka hægt að mæta með pappírsmiðann sem maður sótti bara beint á tónleikana þegar maður kemur á þá. En það er líka mjög mikilvægt, ef miðarnir voru keyptir fyrir hóp eru á sama nafninu þarf allur hópurinn að koma inn á sama tíma til að innrita sig,“ segir Rúnar.
Hann segist þá eiga von á frábærri stemningu og er spenntur fyrir kvöldinu.

„Kærleikur, passa upp á náungann og fara varlega í áfengið og skemmta sér vel og fallega.“
Vísir ræddi við unga stúlku að nafni Bóel, sem er 23 ára og í fæðingarorlofi. Hún kom í röðina ásamt þremur vinkonum sínum um hádegisbil og var nýbúin að fá armband þegar blaðamann bar að garði rétt fyrir klukkan tvö.
Sagði hún röðina hafa náð hálfan hring í kring um Laugardalshöllina þegar hún kom en þegar blaðamaður kom á svæðið náði hún talsvert lengra, eða langleiðina upp á Suðurlandsbraut, þrátt fyrir að liðast í bylgjur og króka.
Bóel keypti sér miða á tónleikana um leið og kostur gafst og var því á meðal þeirra rúmlega 20 þúsund sem biðu í stafrænni röð eftir miðum.
Bóel sagðist ekki hafa gert ráð fyrir að röðin yrði jafn löng og raun bar vitni og hún hafi ekki verið látin vita af þeirri miklu bið sem beið hennar, hvorki fyrir fram né við komuna í Laugardalinn. En allt er gott sem endar vel, Bóel og vinkonur hennar komnar með armböndin sín og geta skemmt sér konunglega á tónleikunum í kvöld.
