Enn hefur ekki verið skipaður dómari í máli ekkju Kanadamannsins sem fórst í flugslysi í Barkárdal gegn flugmanninum og tryggingafélaginu Sjóvá. Roslyn Wagstaff er ekkja ferjuflugmannsins Grants Wagstaff sem lét lífið þegar flugvél í eigu Arngríms Jóhannssonar brotlenti í Barkárdal í Eyjafirði 9. ágúst 2015, eða fyrir fjórum árum.
Arngrímur flaug vélinni sem var á leið frá Akureyri til Keflavíkur. Hann hafði ráðið Grant til að ferja vélina síðan vestur um haf. Sjóvá sem tryggði flugvél Arngríms neitar að greiða ekkjunni bætur. Mál sem hún höfðar gegn Sjóvá og Arngrími var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní síðastliðinn.
Ekki liggur fyrir hvenær málið verður á dagskrá dómsins enda hefur enn ekki verið útnefndur dómari í því samkvæmt upplýsingum úr dómshúsinu. Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu hyggst dóttir Grants Wagstaff, Sarah, einnig höfða mál á eigin spýtur ásamt tveimur systkinum sínum.
Hefur hún óskað eftir því að fá gjafsókn í málinu líkt og móðir hennar mun hafa fengið. Einnig hefur Sarah efnt til hópfjármögnunar á vefsíðunni gofundme.com fyrir kostnaði vegna málsins. Síðast þegar fréttist höfðu safnast 1.250 dalir, jafnvirði 154 þúsund króna
