„Þú ljótur“ (e. You ugly) stóð á miðanum sem starfsmaðurinn rétti Neal Strassner þegar hann fór í gegn um öryggisleit flugvallarins í lok júnímánaðar. Strassner segist nýlega hafa fengið upptöku úr öryggismyndavél flugvallarins þar sem starfsmaðurinn sést rétta honum miðann.
„Ég hringdi í flugvöllinn og reyndi að fá upplýsingar. Þau sögðu mér að ég yrði að eiga málið við sýsluna. Ég hringdi þangað og þau sögðu að ég gæti nálgast upptökuna á grundvelli laga um upplýsingafrelsi,“ hefur fréttastofa NBC eftir Strassner.

Strassner segist hafa orðið mjög ringlaður. Hann hafi horft undrandi á miðann og hugsað með sér hvað þetta væru skrýtnar aðstæður.
Strassner segist í samtali við fjölmiðla vestanhafs ferðast vikulega í gegn um flugvöllinn sökum vinnu sinnar. Hann hafi haft samband við flugvöllinn samdægurs atvikinu til þess að skila inn formlegri kvörtun. Honum hafi þá verið ráðlagt að ræða við yfirmann öryggisleitarinnar í næstu ferð sinni í gegn um flugvöllinn. Hann hafi gert það, en sagðist hafa fengið það á tilfinninguna að honum hafi ekki verið trúað.
Starfsmaðurinn sem um ræðir var ekki á mála hjá flugvellinum, heldur hjá öryggisverktakafyrirtæki sem fer með öryggismál á vellinum. Segir Strassner fyrirtækið hafa lofað því að hafa samband við hann ekki síðar en 13. ágúst vegna málsins.
Hann heyrði hins vegar ekkert frá fyrirtækinu og brá þá á það ráð að hlaða myndbandi af atvikinu upp á spjallborðssíðuna Reddit síðastliðinn fimmtudag. Innan tveggja tíma eftir að myndbandið fór þar inn hafði fyrirtækið samband og hefur nú sagt starfsmanninum upp.