Hjörtur Hermannsson og félagar í Bröndby eru komnir áfram í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir sigur á pólska liðinu Lechia Gdansk eftir framlengdan leik í kvöld.
Bröndby tapaði fyrri leiknum 2-1 en mættu ákveðnir til leiks í kvöld og komust yfir eftir stundarfjórðung. Eftir hornspyrnu kom Paulus Arajuuri boltanum í netið.
Þannig stóðu leikar í hálfleik en á 53. mínútu skoraði Kamil Wilczek Bröndby í 2-0 eftir góða fyrirgjöf. Þrettán mínútum síðar minnkuðu gestirnir muninn í leik kvöldsins og jöfnuðu samanlagt. Því þurfti að framlengja.
Rétt áður en framlengingin hófst kom hinn nítján ára gamli Jesper Lindström inn á. Hann skoraði þriðja mark Bröndby á 94. mínútu og fjórtán mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt og fjórða mark Bröndby.
Lokatölur 4-1 sigur Bröndby og samanlagt 5-3 en Hjörtur lék allan leikinn í vörn Bröndby og gerði vel í kvöld. Flottur leikur hjá Fylkismanninum en Bröndby mætir FH-bönunum í Braga í næstu umferð.
