Samkvæmt minni reynslu og fólks í kringum mig (karla og kvenna) er eins og við séum orðin sífellt dofnari fyrir áreiti á netinu og niðrandi skilaboðum.
Það er mitt áhyggjuefni að þessi markalausu og oft mjög vanvirðandi samskipti á netinu hljóti að hafa áhrif á það hvernig við hegðum okkur þegar fólk svo hittist í raun og veru.
Eru mörkin okkar alltaf að vera óljósari?
Einhleypt fólk er ekkert alltaf að leita eftir ástinni og stundum eru skyndikynni eitthvað sem fólk sækist meira í ef það hentar á þeim tíma. Það er samt sem áður mjög mikilvægt að fólk beri virðingu fyrir sjálfu sér, hinum aðilanum og komi heiðarlega fram.
Verum skýr með það sem við erum að leita eftir, hvort sem það er ástarævintýr, samband eða skyndikynni.
Virðum mörk hvors annars og ef við erum ekki viss hvað hin manneskjan vill, SPYRJUM!
Óháð þínu kyni, ekki vera fáviti!
Ef einhver sýnir þér vanvirðingu í rafrænum samskiptum, ekki gera ráð fyrir því að manneskjan sýni þér virðingu augliti til auglitis.
Það er ekkert yndislegra en að fá fiðrildi í magann og hvað þá verða ástfangin/n. Jafnframt er fátt eins erfitt og sorglegt og að þurfa að takast á við áreiti eða ofbeldi.
Makamál óska þess einlægt að fólk eigi dásamlega helgi framundan, fulla af gleði, hamingju, ást og spennandi ævintýrum.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta frekar á umræður um málefnið í Bítinu á Bylgjunni.