Kåre Press-Kristensen, umhverfisverkfræðingur frá Danska vistfræðiráðinu, mældi mengun frá skemmtiferðaskipinu Viktoríu drottningu við Sundahöfn í gær. Hann vinnur með Clean Arctic Alliance, regnhlífarsamtökum sem vinna að banni við bruna á svartolíu á norðurslóðum, sem Náttúruverndarsamtök Íslands eiga aðild að.
Mælingin benti til þess að styrkur PM0,1 svifryks, fínustu gerðar rykagna, væri tvö hundruð sinnum meiri á bryggjunni við skemmtiferðaskip sem lá við Sundahöfn í morgun en eðlilegt er í borginni, á milli 40.000-50.000 agnir á rúmsentímetra. Það eru jafnmargar agnir og þrjú til fimm þúsund bílar losuðu á sekúndu.
Sambærilegt magn svifryks mældist við Sundahöfn sumarið 2017 þegar þýsk náttúruverndarsamtök mældu það fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Á annað hundrað skemmtiferða- og farþegaskip koma til hafnar í Reykjavík á þessu ári.
PM0,1-svifryk eru fínustu mengunaragnirnar, sót sem losnar við bruna á brennsluolíu í vélum skemmtiferðaskipanna. Þær eru svo smáar að þær smjúga djúpt ofan í lungu fólks sem andar þeim að sér. Þar valda þær bólgum og geta dreift sér um líkamann í gegnum blóðrásina.
Fínt svifryk hefur verið tengt við hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma, krabbamein og fleiri heilsukvilla sem leiða til ótímabærra dauðsfalla.

Berst yfir borgina við vissar aðstæður
Press-Kristensen segir við Vísi að mælingin sem var gerð í gærmorgun hafi aðeins náð til jaðars mengunarskýsins frá skemmtiferðaskipinu. Styrkur svifryksins sé enn meiri í skýinu miðju sem komi niður fjær höfninni. Þegar vindátt og hraði er óhagstæður getur sú mengun komið niður yfir byggð.Mikil mengun losni frá skipunum sem liggi oft við höfn í allt að hálfan sólahring. Ólíkt bílum og orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti eru engar mengunarsíur eða útblásturshreinsikerfi í skipunum. Eins er margfalt meiri brennisteinn í hreinasta skipaeldsneyti en í dísilolíu fyrir bifreiðar. Mengunin eigi sér yfirleitt stað á sumrin og á tímum dags þegar fólk er úti við.
Þegar skipin láta svo úr höfn brenna þau enn óhreinna eldsneyti, svartolíu. Press-Kristensen segir að auk loftmengunarinnar verið að huga að hættunni á svartolíuleka frá skipunum sem sigla um norðurslóðir. Ómögulegt yrði að hreinsa upp olíuleka í norðurhöfum. Mengunin yrði lengi að eyðast og dreifðist víða með tilheyrandi áhrifum á náttúru og lífríki hafsins.
„Þessu skítuga eldsneyti ætti ekki að brenna á skipum án nokkurra mengunarvarna. Þau geta siglt á hreinna eldsneyti og það er kominn tími til að við látum skipaiðnaðinn laga sig að nútímanum,“ segir hann.

Tengi skipin við rafmagn og banni svartolíu
Í stað þess að brenna óhreinni olíu segir Press-Kristensen að skipin ættu að tengjast rafmagni í landi þegar þau eru við höfn á Íslandi. Mörg þeirra séu nú þegar búin til að taka við rafmagni, þau þurfi aðeins innstunguna. Þá þurfi að koma mengunarsíum í skipin til að hreinsa útblástur þeirra.Árni Finnsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að miðað við mengunina í Sundahöfn megi ætla að hún sé ekki minni í öðrum höfnum landsins þar sem skemmtiferðaskip koma eins og í Seyðisfirði, á Akureyri og í Ísafirði.

Hann bendir jafnframt á loftslagsáhrif sótsins sem losnar við bruna á svartolíu. Sótið sest á ís og jökla á norðurslóðum þar sem það drekkur í sig sólarorku og eykur þannig bráðnun sem þegar á sér stað vegna hnattrænna hlýnunar af völdum manna.
„Íslandi er ekki stætt á að leyfa íslenskum skipum að brenna svartolíu ef markmiðið er samtímis að fasa út svartolíu, líkt og segir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum,“ segir Árni.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að reglugerðarbreytingu sem takmörkun á bruna svartolíu innan íslenskrar landhelgi í vor. Með þeirri breytingu yrði leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækkað úr 3,5% í 0,1% um áramótin.
Fréttin hefur verið uppfærð.