Enski boltinn

Bakvarðaskipti Man City og Juventus að ganga í gegn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kynntur hjá Englandsmeisturunum í dag
Kynntur hjá Englandsmeisturunum í dag vísir/getty
Ætla má að leikmannaskipti á milli Englandsmeistara Manchester City og Ítalíumeistara Juventus muni ganga í gegn í dag.

Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo, sem hefur verið á mála hjá Juventus í eitt ár, er á leið til Man City í skiptum fyrir brasilíska bakvörðinn Danilo en City mun einnig þurfa að punga út nokkrum milljónum punda að auki.

Cancelo er 25 ára gamall og lék 25 leiki í Serie A á síðustu leiktíð en hann lék áður með Inter Milan, Valencia og Benfica. Hann á 14 A-landsleiki fyrir Portúgal.

Hinn 28 ára gamli Danilo hefur spilað 54 leiki fyrir Man City síðan hann gekk í raðir félagsins frá Real Madrid sumarið 2017 fyrir tæpar 30 milljónir punda en hann kom við sögu í aðeins 11 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Eins og sjá má á Twitter færslu Juventus hér fyrir ofan er Danilo í læknisskoðun í Torinó í þessum skrifuðu orðum og má ætla að Cancelo sé að ganga í gegnum slíkt hið sama í Manchester borg.

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Juventus í sumar en á meðal nýrra leikmanna ber helsta að nefna Matthijs de Ligt, Aaron Ramsey, Adrien Rabiot, Gianluigi Buffon auk þess sem ekki er enn útilokað að Romelu Lukaku muni bætast við hópinn áður en yfir lýkur.

City hafa aftur á móti verið öllu rólegri á markaðnum þó liðið hafi vissulega keypt dýrasta leikmann í sögu félagsins þegar meistararnir festu kaup á spænska miðjumanninum Rodri frá Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×