Þrumuveðrið var mest suður- og suðaustur af landinu en engar eldingar mældust á Suður- og Vesturlandi, þ.e. Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði.
Veðrið stóð í 24 klukkustundir. Fyrsta eldingin var skráð klukkan 06:46 í gær, 29. júlí, og sú síðasta klukkan 07:05 í morgun, 30. júlí, en síðast var gerð athugun klukkan 9 í morgun. Þrumuveðrið var mest frá því klukkan 18 til 23 í gærkvöldi. Skráðar eldingar voru 1818 og sjást á meðfylgjandi korti.
Haraldur Eiríksson veðurfræðingur á Veðurstofunni sagði í samtali við Vísi í morgun að þrumuveðrið hefði verið einkar öflugt og líkti því við þrumuveður í útlöndum. Á áttunda tímanum í morgun höfðu engar tilkynningar um þrumuveðrið eða tjón af völdum þess borist Veðurstofunni. Ekki er gert ráð fyrir frekara þrumuveðri í vikunni en ágætisspá er nú í kortunum fram að verslunarmannahelgi.