Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins slökkti eld í íbúð í fjölbýlishúsi í Rangárseli í Reykjavík í nótt. Töluverður reykur barst frá húsinu og var því ákveðið að senda allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu á vettvang þegar útkallið barst klukkan korter í þrjú í nótt.
Sá sem tilkynnti um eldinn taldi að enginn væri í íbúðinni en engu að síður ákváðu slökkviliðsmenn að leita af sér allan grun um að enginn væri þar inni. Enginn reyndist vera í íbúðinni en þegar þangað var komið inn reyndist um minniháttar eld að ræða sem var slökktur á nokkrum mínútum.
Talsverðar skemmdir urðu á íbúðinni vegna hita og reyks en slökkvistarfi var lokið þegar klukkuna vantaði 25 mínútur í fjögur í nótt.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna elds í Rangárseli
Birgir Olgeirsson skrifar
