Síðastliðið laugardagskvöld ætlaði Númi Sveinsson, verkfræðinemi, á skemmtistaðinn Austur til að skemmta sér með vinum sínum. Vinir hans voru komnir á undan honum og var hann því einn á leið inn þegar dyravörður staðarins biður hann um skilríki.
„Ég er eitthvað að reyna laga eyrnalokkinn minn á meðan ég er að finna skilríkið mitt og þá segir dyravörðurinn við mig „gay’s are not allowed inside eða samkynhneigðir eru ekki leyfðir hér,“ segir Númi. Dyravörðurinn hafi svo spurt hvort hann væri ekki samkynhneigður.
„Ég hleyp þarna beint aftur inn í skápinn og segir nei, sem ég sé náttúrulega eftir núna,“ segir Númi en honum leið mjög skringilega eftir atvikið. Hann bað svo vini sína að koma út og þau fóru annað.

Númi kveðst ánægður með viðbrögð forsvarsmanna Austurs í málinu en dyraverðinum var sagt upp störfum og Númi beðinn afsökunar
„Þetta var sjokk fyrir okkur. Við stöndum ekki fyrir þetta. Þetta voru mistök einnar manneskju ekki klúbbsins,“ segir Raul Ferreira, framkvæmdastjóri Austurs og bætir við að svona líðist ekki á Austur.
„Ég get ekki beðið um neitt meira en að maðurinn sem gerði þetta sé rekinn. Tíminn sem svona hatur á sér stað er bara liðinn,“ segir Númi og bætir við að hann hafi aldrei upplifað fordóma af þessu tagi.
„Það eru meira duldir fordómar til dæmis augnglott og þannig,“ segir Númi sem óttast það eftir atvikið að aðrir sem tilheyri jaðarsettari hópnum verði fyrir svo grimmum fordómum. „Ég er í mikilli forréttindastöðu þannig séð, ég tala reiprennandi íslensku og er hvítur karlmaður. Það eru hópar sem eru í mun jaðarsettari stöðu en ég sem eiga erfiðara,“ segir Númi.