Ótrúleg sprenging hefur orðið í komu gesta í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á fyrstu sex mánuðum ársins og þá hafa ívið fleiri lagt leið sína í sundlaugar Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍTR.
Gestum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins fjölgaði um 32 þúsund á fyrri helmingi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þá hafa 40 þúsund fleiri gestir mætt í sundlaugarnar miðað við í fyrra. Gestafjöldinn í laugarnar er 1.173.000 og í Fjölskyldugarðinn 100.600 fyrstu sex mánuðina.
Fréttablaðið hefur áður greint frá því að í nú í maí var metaðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en þá heimsóttu 26 þúsund manns dýrin og leiktækin. Var það töluverð fjölgun gesta miðað við árið áður en maímánuður 2018 var sá versti í sögu garðsins þegar gestir voru einungis 13 þúsund.
Í maí 2019 komu 26.000 fleiri gestir í sund en árið 2018 og 14.000 fleiri í júnímánuði 2019 en 2018. Í Fjölskyldugarðinum voru gestir 14.000 fleiri í júnímánuði samanborið við 2018.
Ekki eru til gögn yfir fjölda gesta á Ylströndinni í Nauthólsvík en í tilkynningunni kemur fram að aðsókn þar hafi verið gífurlega góð í sumar, bæði hjá þeim sem sækja Ylströndina heim sem og hjá þeim sem stunda sjósund.