Hiti náði 26,8 gráðum í Hjarðarlandi í Biskupstungum klukkan 15 í dag sem er hæsti hiti sem hefur mælst hér á landi í ár. Við Gullfoss fór hiti í 26,3 gráður í dag en áður hafði hiti mest náð tæpum 26 gráðum í Ásbyrgi í gær.
Í Reykjavík náði hiti 19 gráðum klukkan 15 í dag, 19 gráður voru í Bolungarvík á hádegi og tæp 21 gráða mældist á Akureyri á hádegi,
Um er að ræða leifar af hitabylgju sem hefur gengið yfir Evrópu undanfarnar vikur en útlit er fyrir hlýtindi á stórum hluta Íslands næstu daga.
Á morgun er gert ráð fyrir að hiti getið náð 24 til 25 gráðum og verður svipað upp á teningnum á miðvikudag.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Austan 5-10 m/s, en 10-15 við suðurströndina. Víða léttskýjað, en dálítil væta syðst og þokubakkar við austurströndina. Hiti 15 til 23 stig, en 10 til 15 austanlands.
Á fimmtudag:
Austlæg átt 3-8 og bjart veður, en skýjað og dálítil súld austanlands. Hiti víða 15 til 20 stig að deginum, en svalara á Austurlandi.
Á föstudag og laugardag:
Hæg breytileg átt eða hafgola, bjart með köflum og hlýtt í veðri, en þokuloft við norður- og austurströndina.
Á sunnudag:
Útlit fyrir svipað veður áfram.

