Alls hafa sautján börn greinst með E. coli sýkinguna á Íslandi síðustu vikur. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa komið að Efstadal II, sem er vinsæll ferðamannastaður.
Fjölmargir ferðamenn heimsækja bæinn og hefur sóttvarnalæknir m.a. látið heilbrigðisstofnanir erlendis vita af sýkingunni, svo og haft samband við ferðaþjónustufyrirtæki sem komi skilaboðunum áleiðis til farþega sinna.
Sjá einnig: Hætta á að erlendir ferðamenn hafi smitast í E. coli-faraldrinum og haldið heim til sín
Þórólfur sagði í Vikulokunum að fleiri hefðu ekki greinst hér á landi síðan í gær, þegar tilkynnt var um sautjánda smitið.
„Það eru reyndar fleiri sem bíða eftir rannsóknarniðurstöðum sem verðaekki gerðar fyrr en eftir helgina þannig að vafalaust bætast einhverjir við eftir helgi.“

Annar einstaklingurinn var rannsakaður og ekki með sýkinguna en hins vegar sé líklegt að bandarískt barn hafi smitast.
„Þá höfum við verið að fá fregnir af einstaklingum erlendis frá sem hafa verið á þessum sömu stöðum, það er að segja Efstadal [II], og veikst erlendis. Ég fékk síðast í gær tölvupóst frá Ameríku þar sem að barn var lagt inn á spítala með sömu sýkingu,“ sagði Þórólfur.
Þórólfur sagði í gær að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til að sporna við fleiri smitum virðist bera árangur. Þannig var allri ísframleiðslu að Efstadal II hætt og samgangur við nautgripi og kálfa stoppaður, en þekkt er að E. coli-bakterían finnst í nautgripum og þá sérstaklega kálfum. Ekkert barn hafi greinst með sýkinguna sem var að Efstadal II eftir 4. júlí.