Sérstök ákvæði eru um framkvæmd og uppsetningu skjólveggja í deiliskipulagi hverfisins sem Jón Pálmi vill að bærinn fylgi eftir.
Urriðaholt ehf. var upphaflegur eigandi landsins sem hverfið reis á og þróaði skipulag og hugmyndafræði þess í samráði við Garðabæ.
Í bréfi Jóns Pálma, sem lagt var fyrir bæjarráð Garðabæjar í vikunni, segir að stór þáttur í skipulagi Urriðaholts sé að skapa aðlaðandi götumynd fyrir íbúa hverfisins. Ákvæði um skjólveggina hafi því verið sett til að tryggja það.

„Einhverjir hafa brugðist við ábendingum Garðabæjar en aðrir ekki. Það er okkar mat að það sé enn mikið af þessu sem þarf að laga,“ segir Jón Pálmi í samtali við Fréttablaðið.
Aðspurður segir hann skjólveggjaskilmálana fyrst og fremst fagurfræðilegs eðlis til að götumyndin haldi sér. Meiri bragur sé á því að horfa á fallega garða og húshliðar en röð af skjólveggjum með fram götunni.
„Menn hafa verið að reisa of háa veggi og of nálægt lóðamörkum.“
Jón Pálmi segir að ekki sé hægt að láta þessar óleyfisframkvæmdir og brot á deiliskipulagi viðgangast og mikilvægt að bæjaryfirvöld sýni festu í þessu máli.