Skoðanakannanir í Kanada benda nú til þess að fylgi Frjálslynda flokks Justins Trudeau forsætisráðherra sé að braggast eftir hneykslismál sem skók ríkisstjórn hans í vetur. Hann eygir nú möguleikann á endurkjöri í kosningum í október.
Ef marka má könnun Nanos fengju frjálslyndir 34,6% atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Það er tæpum fimm prósentustigum undir þeim mörkum sem flokkur þarf til að ná meirihluta í neðri deild kanadíska þingsins samkvæmt kosningakerfi landsins. Íhaldsflokkurinn fengi 30,4%, Nýi lýðræðisflokkurinn 17,9% og Græningjar 8,8%, að því er segir í frétt Reuters.
Færu kosningarnar á þennan veg gæti Trudeau aðeins myndað minnihlutastjórn og þyrfti að reiða sig á stuðning annarra flokka til að koma þingmálum í gegn.
Staðan Trudeau er engu að síður betri nú en í vor þegar flokkur hans mældist minnist en Íhaldsflokkurinn. Forsætisráðherrann hafði þá legið undir harðri gagnrýni fyrir hvernig ríkisstjórn hans hlutaðist til um eitt stærsta spillingarmál í sögu Kanada og varðar verktakarisann SNC-Lavalin.
Dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Trudeau sagði af sér vegna þess sem hún taldi óeðlileg afskipti hans og ráðgjafa hans af meðferð málsins.

