Pedro Hipolito starfar ekki lengur sem þjálfari ÍBV í Pepsi Max-deild karla en ÍBV tilkynnti í kvöld að samkomulag hefði náðst um að aðilar myndu ljúka samstarfi.
Hipolito tók við ÍBV fyrir núverandi tímabil en það situr nú í neðsta sæti deildarinnar að loknum tíu leikjum eftir þrjá tapleiki í röð, síðast gegn Stjörnunni á Hásteinsvelli í dag.
Þar að auki féll ÍBV úr leik í fjórðungsúrslitum Mjólkurbikarsins í vikunni, 3-2 gegn Víkingi þrátt fyrir að hafa náð 2-0 forystu í leiknum. ÍBV hefur aðeins unnið einn leik í Pepsi Max-deild karla á tímabilinu; 3-2 sigur á þáverandi toppliði ÍA þann 2. júní.
Hipolito kom hingað til lands fyrst árið 2017 og tók þá við Fram. Þar starfaði hann í tvö tímabil.
ÍBV fékk fyrr í mánuðinum Gary Martin til liðs við félagið eftir skamma dvöl hjá Val. Hann fær hins vegar ekki leikheimild með Eyjamönnum fyrr en eftir helgi. Næsti leikur Eyjamanna verður gegn KR í Vestmannaeyjum á laugardag klukkan 16.00.
Hér má lesa tilkynninguna frá ÍBV:
„Knattspyrnuráð ÍBV og Pedro Hipolito hafa komist að samkomulagi um að ljúka samstarfi. ÍBV þakkar Pedro fyrir það það mikla og óeigingjarna starf sem hann lagði á sig og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Fyrst um sinn mun Ian Jeffs taka yfir þjálfun meistaraflokks ÍBV.“
