Upphafleg tillaga að sundlauginni gerði ekki ráð fyrir rennibraut en Íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur, sem rekur sundlaugar borgarinnar, höfðu borist ábendingar um að rennibraut kynni að auka til muna afþreyingargildi laugarinnar, eftir því sem fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
VA arkitektar, sem teikna bæði laugina og rennibrautina, gera í tillögum sínum ráð fyrir rennibraut sem byrjar í um sjö metra hæð, tröppuhúsi og lendingarlaug. Stækkun laugarsvæðisins sem rennibrautin hefur í för með sér nemur um 200 fermetrum.
Frumkostnaðaráætlun vegna rennibrautarinnar, ásamt stækkun á laugarsvæði, er um 200 milljónir króna, sé miðað við verðlag í júní 2019 og verður starfshópi um uppbyggingu laugarinnar falið að vinna að útfærslu á rennibrautinni og lendingarlaug hennar, í samráði við ÍTR.
