Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stöðu Íslandspósts ohf verður gerð opinber í dag að lonum sameiginlegum fundi fjárlaga,- stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Á fundinum sem nú stendur yfir er fulltrúi Ríkisendurskoðunar, fulltrúar frá samgöngu- og fjármálaráðuneytis og stjórn Íslandspósts.
„Fyrir mig, ég er nú búinn að vera þrjár vikur í starfi, þá er þetta besta vegnesti fyrir mig, stjórn félagsins og starfsfólk að taka skýrsluna og vinna úr henni tillögur að úrbótum sem ríkisendurskoðandi leggur til og þær passa mjög vel við mínar áherslur þannig að mér finnst þetta bara hið besta mál,“ segir Birgir í samtali við fréttastofu.
Íslandspóstur tilkynnti um viðamiklar skipulagsbreytingar í fyrirtækinu. Fækkað er í framkvæmdastjórn og framundan eru hagræðingaraðgerðir að sögn forstjóra. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um rekstur fyrirtækisins var kynnt fyrir tveimur nefndum Alþingis í morgun.
Sjá nánar: Fækkar framkvæmdastjórum og flytur í ódýrara húsnæði
Birgir segir að það sé ekki í hans verkahring að fella dóma yfir fyrri stjórnendum en segir þó að þeir hefðu þurft að gera afdráttarlausari breytingar á rekstrinum.
„Það er eiginlega bara ekki mitt að gera það. Skýrslan gerir það sjálf. Ég sé ekkert í henni sem er neinn áfellisdómur yfir neinum. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og segja að það hefði átt að beygja hægri, vinstri vinstri. Þegar ég kem nýr inn í svona starf þá er mitt starf miklu meira að horfa til hvernig við getum gert hlutina öðruvísi í framtíðinni heldur en að setja mig inn í hvað gerðist fyrir einhverjum árum síðan þannig að ég hef kannski ekkert mikið um þetta mál að segja.“
Bréfin á útleið en aukning á pakkasendingum
„Við erum í dag að kynna breytingar þar sem við erum að einfalda skipuritið, við erum að fækka framkvæmdastjórum úr fimm í þrjá og að draga fram lykilþætti í starfseminni sem við teljum að séu mikilvægir fyrir framtíðina; stafræna þróun, mannauðsmál og aðra starfsemi sem skiptir máli,“ segir Birgir sem bætir við að fjárhagsstaða Íslandspósts hafi um skeið verið afar slæm.
Birgir segir að stefnt verði að því að „létta á eignayfirbyggingu í félaginu, minnka stjórnunarkostnað“. Hann segir að hingað til hafi ekki verið mikil áhersla lögð á þess háttar rekstrarhagræðingu síðastliðin ár, þess í stað hafi fyrirtækið fækkað dreifingardögum, breytt þjónustunni og hækkað verð. Hann segist telja að hægt sé að hagræða talsvert í rekstrinum án þess að koma þurfi til skerðingar á þjónustu.
Afnámu einkarétt ríkisins á póstmarkaði
Fyrir helgi samþykkti Alþingi ný póstlög en helstu tíðindi er afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði og opnun markaðar. Aðspurður telur Birgir ekki að gildistaka laganna verði fyrirtækinu högg.„Ég er ekkert viss um það. Ég held bara að samkeppni sé af hinu góða og Íslandspóstur er fyrirtæki sem er að stórum hluta á samkeppnismarkaði. Fólk hugsar alltaf um bréfin en við erum að langstærstum hluta núna í pakkadreifingu þannig að ég treysti okkur alveg til þess að framkvæmt þessa þjónustu jafnvel og aðrir sem munu hafa áhuga á henni.“