Jens Stoltenberg byrjaði á því að heimsækja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem hann skoðaði bandaríska P-8 Poseidon eftirlitsflugvél en hélt síðan til fundar í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík.
Mikil öryggisgæsla fylgir komu framkvæmdastjóra NATO, raunar svo mikil að öryggisverðir lentu í erfiðleikum með að opna dyrnar á bíl Stoltenbergs. Eftir vandræðalega bið gat Jens loksins stigið út til að heilsa upp á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem gerði grín að uppákomunni.
„Þeir verða að hleypa þér út,“ sagði Guðlaugur Þór.

Katrín sagði þau deila áhyggjum af pólitískri spennu vegna norðurslóða og vegna útbreiðslu kjarnavopna í heiminum. Þau ræddu einnig um netógnir. Þá lýsti Jens ánægju með margvíslegt framlag Íslands til NATO-samstarfsins.
„Skilaboð mín í dag eru þau að við búum í óútreiknanlegri heimi, á óvissum og ófyrirsjánlegum tímum. Við þurfum sterkar fjölþjóðlegar stofnanir eins og NATO og Ísland leggur sitt af mörkum til að styrkja bandalagið okkar, svo kærar þakkir fyrir það,“ sagði Stoltenberg.
„Svo töluðum við um þjóðerni Leifs Eiríkssonar. Við sköpuðum öryggisaðstæður hérna uppi á annarri hæð. Ég held að þetta hafi verið hættulegasta efnið sem við ræddum,“ sagði Katrín í léttum dúr.
Og meðan færi gafst á ljósmyndun lýsti Jens óvenjulegri reynslu af efri hæðinni í Ráðherrabústaðnum.
„Fundurinn uppi á annarri hæð var fyrsti NATO-fundurinn með þjóðarleiðtoga og öðrum forystumönnum ríkis sem ég hef tekið þátt í þar sem ég var eini karlmaðurinn í herberginu,“ sagði hann.
„Hann var eini karlinn í herberginu. Það var nýlunda,“ bætti Katrín við.
Þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdastjóri NATO fundar á Íslandi með forsætisráðherra sem er andstæðingur NATO-aðildar. Hann taldi það þó ekki hafa truflað.
„Þetta er ekkert vandamál, þetta endurspeglar að það eru mismunandi flokkar í lýðræðisríkjum, eins og við sjáum á Íslandi og í öðrum NATO-ríkjum,“ sagði Jens Stoltenberg.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: