Ekki er að vænta frekari rigningarskúra á höfuðborgarsvæðinu í dag, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands en íbúar á suðvesturhorninu tóku eflaust flestir eftir því þegar rigndi nú síðdegis – eftir alllanga þurrkatíð.
Útlit er fyrir að haldist þurrt þangað til á þjóðhátíðardaginn en fyrstu og svörtustu rigningarspár virðast þó ekki ætla að rætast.
Sjá einnig: Stefnir í rennblautt hæ hó og jibbí jei
Teitur Arason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að varla hafi rignt á höfuðborgarsvæðinu síðan í kringum 20. maí. Hann bendir þó á að áður hafi komið sambærileg þurrkatímabil, líkt og sumarið 2012.
Í gær leit svo út fyrir að verulega blautt yrði á 17. júní, sem ber upp á mánudaginn. Teitur segir að nú líti út fyrir að rigningin láti síðar á sér kræla, og í minni mæli, en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þá verði líklega ágætisveður víða um land framan af degi.
„Þessi spá sem fór í fjölmiðla þarna, hún var svona versta útgáfan,“ segir Teitur um þjóðhátíðardagsspána í gær.
Þjóðhátíðarrigningin haldi svo áfram fram á þriðjudag og þá komi einnig svalara loft yfir landið sem leysi hinn hlýja loftmassa af hólmi. Þannig verði hiti ekki um 20 stig líkt og gerst hefur ítrekað á Suður- og Vesturlandi síðustu daga. Hlýtt hefur verið vestanlands í dag en hiti fór yfir 22 stig í Borgarfirði, bæði á Hvanneyri og að Litla-Skarði.
Versta rigningarspáin fór í fjölmiðla

Tengdar fréttir

Stefnir í rennblautt hæ hó og jibbí jei
Veðurspár segja að það muni rigna duglega 17. júní.