„Við erum með þrjá skipstjóra og þrjá vélstjóra, þessi tími er notaður í að þjálfa sig á skipið enda er búnaðurinn gjörólíkur núverandi Herjólfi. Það er verið að ganga frá og gera allt klárt,“ segir Guðbjartur.
Heimkoma Herjólfs er, eins og áður sagði, áætluð laugardaginn næsta. Ferjan hefur þó ekki farþegasiglingar umsvifalaust en ganga þarf frá ýmsum atriðum áður en áætlunarsiglingar hefjast. „Það þarf að fá haffæri, farþegaleyfi og ganga frá ýmsum skráningum og merkingum. Svo þarf að máta skipið á þær hafnir sem við siglum á. Það er smá tími sem fer í æfingar og að gera skipið klárt í rekstur, segir Guðbjartur en vonir standa til að því ferli verði lokið um næstu mánaðamót.
Sjá einnig: Herjólfur afhentur og íslenskur fáni dreginn að húni
Afhending Herjólfs hefur tafist nokkuð og er það mikið fagnaðarefni að ferjan sé nú á heimleið og geti hafið siglingar í Landeyjahöfn fljótlega.
Nýr Herjólfur er rafmagnsferja og mun sigla alfarið fyrir rafmagni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja þegar frá líður. Settur verður upp búnaður á báðum stöðum til að hlaða ferjuna í landi og með rafmagni. Einnig eru um borð vélar sem alla jafna hlaða geyma skipsins sem síðan knýja skrúfurnar. Reikna má með að við siglingar til Þorlákshafnar þurfi að nota vélarnar til að framleiða rafmagnið.
„Við fengum skipið afhent á þriðjudaginn og það var í ýmsu að snúast í pappírsvinnu og að gera skipið sjóklárt. Við vorum með það á teikniborðinu að fara af stað á sunnudegi, það tókst,“ sagði Guðbjartur glaður í bragði.
