Innlent

Svartolíubann kostar fyrirtæki skildinginn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Svartolía verður bönnuð í íslenskri landhelgi frá og með áramótum samkvæmt drögum að nýrri reglugerð sem voru birt í dag. Olían er sú óhreinasta sem notuð er í skiptaflotanum og þetta er bæði mikilvægt loftgæða- og loftslagsmál að sögn umhverfisráðherra. Breytingarnar hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir fyrirtæki.

Skipin mega nú þegar ekki brenna svartolíu við hafnir en samkvæmt reglugerðardrögum sem voru birt í morgun má hlutfall brennisteins í skipaeldsneyti sem er notað innan landhelginnar einungis vera 0,1% Það útilokar í raun svartolíu nema sérstakur hreinsunarbúnaður sé notaður. Umsagnarfrestur er til 7. júní og á reglugerðin að taka gildi 1. janúar 2020.

Svartolían er óhreinasta skipaolían og í reyknum sem myndast við brennsluna eru örsmár sótagnir sem berast meðal annars í öndunarfæri. 

„Þetta er loftgæðamál en þetta er líka loftslagsmál. Það er sót sem kemur af brennslu svartolíunnar og það legst meðal annars á jökla og getur haft áhrif á þá varðandi bráðnun," segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Ekki er ljóst hversu stórt hlutfall þeirra skipa sem sigla um íslenska landhelgi brenna svartolíu en í skýrslu Umhverfisstofnunar kemur fram að svartolía var um fjórðungur af heildarsölu á skipaolíu árið 2017. Yfir nokkurra ára tímabil hefur notkunin dregist aðeins saman.

Svartolía telur tæpan helming olínotkunar Eimskipa.
Tonn af svartolíu er um tvö hundruð dollurum ódýrari en af gasolíu og mun breytingin hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir fjölmörg fyrirtæki, líkt og Eimskip og Samskip. Svartolía telur tæpan helming olíunotkunar Eimskipa. Félagið mun setja hreinsibúnað í skipið Lagarfoss í haust og getur því haldið áfram að keyra á svartolíu að því leyti. Þá verða tvö skip sem koma til landsins í árslok einnig með búnaðinn. Áætluð kostnaðaraukning er þó metin á um 320 til 420 milljónir króna á ári.

Umhverfisráðherra skoðaði að takmarka bannið við tiltekna firði eða svæði við landið en ákvað að ganga lengra.

„Ég tel að Ísland sé að skipa sér hér í fremsta flokk þegar kemur að þessum málum. Svo vonast ég líka að með svona aðgerðum sé verið að búa til hvata til þess að ráðist verði í þróun á umhverfisvænni eldsneyti fyrir skip," segir Guðmundur Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×