KR er komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir öruggan sigur á Dalvík/Reyni í dag.
Björgvin Stefánsson kom KR-ingum á bragðið með marki á fimmtu mínútu en KR hafði mikla yfirburði í leiknum strax frá upphafi.
Björgvin lagði svo upp annað mark KR-inga fyrir Alex Frey Hilmarsson, en Alex hafði lagt upp mark Björgvins í upphafi.
Staðan var 2-0 í hálfleik en strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Aron Bjarki Jósepsson úr vítaspyrnu. Kelvin Sarkorh fékk boltann í höndina innan vítateigs og víti dæmt.
Á 71. mínútu skoraði Ægir Jarl Jónasson fjórða mark KR eftir sendingu Pálma Rafns Pálmasonar. Pálmi var aftur á ferðinni á lokamínútunni, þá sendi hann boltann á Aron Bjarka sem skoraði sitt annað mark.
5-0 sigur KR staðreynd og Vesturbæingar fara áfram í keppninni en Norðanmenn eru úr leik.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

