Þann 30. apríl síðastliðinn lést sextán ára drengur í umsjá yfirvalda í Bandaríkjunum og er málið nú til rannsóknar hjá yfirvöldum vestanhafs.
Drengurinn er frá Gvatemala og hafði verið í umsjá landamærayfirvalda í Texas í miðstöð fyrir innflytjendur frá 20. apríl. Starfsmenn miðstöðvarinnar segja engin heilsufarsvandamál hafa verið til staðar þegar drengurinn kom þangað og hann hafði ekki kennt sér meins.
Daginn eftir komuna í miðstöðina varð drengurinn „bersýnilega veikur“ að sögn starfsmanna og kvartaði undan hausverk og skjálfta. Færðu starfsmenn hann á spítala til aðhlynningar þar sem hann var útskrifaður sama dag og færður aftur í miðstöðina.
Að sögn starfsmanns landamæragæslunnar batnaði heilsa drengsins ekki við komuna til baka og var hann fluttur að nýju á sjúkrahús og síðar færður á barnaspítala í fylkinu. Var honum haldið á gjörgæslu næstu daga þar sem hann svo lést þann 30. apríl.
Ekki er vitað um dánarorsök drengsins en bróðir drengsins heimsótti hann á spítalann og hefur fjölskylda drengsins verið látin vita af dauðsfalli hans.
Er þetta þriðja barnið sem deyr í umsjá yfirvalda í Bandaríkjunum síðan í desember á síðasta ári en þá lést sjö ára stúlka vegna ofþornunar og aðeins nokkrum vikum seinna lést átta ára drengur á jólanótt

