Nýliðinn aprílmánuður var óvenju hlýr ef litið er til fyrri ára, en hann var sá næsthlýjasti á landsvísu síðan mælingar hófust. Einungis apríl 1974 var hlýrri. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Þá kemur fram að aprílmánuðurinn sem leið hafi verið sá hlýjasti síðan mælingar hófust á alls sex stöðum, eða í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum.
Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að suðlægar áttir hafi verið ríkjandi í mánuðinum, þurrt og bjart norðanlands en blautara syðra. Þá hafi gróður tekið vel við sér.

